Hvers konar gervigreind: um þýðingar

Ég held að þetta sé fyrsta grein sem ég birti hér á Education4site á íslensku. Vanalega hef ég birt íslenskar greinar á Upplýsandi tæki, vef mínum á bloggkerfi Mbl.is. Ég hef h.v. engan áhuga á að pósta efni mitt þar enda á enga samleið með bloggsamfélaginu sem hýsir sig þar. Ætlunin er að setja upp íslenskan vef hér á Education4site en ég hef ekki komið því í kring.

Nokkur umræða hefur verið meðal skólafólks um hvernig skuli þýða enska hugtakið generative artificial intelligence (AI). Nokkrar hugmyndir hafa verið settar fram:

  • skapandi gervigreind (nýskapandi gervigreind)
  • mótandi gervigreind
  • myndandi gervigreind
  • spunagreind

Það eru ólík rök sem fylgja hverri tillögu og skiptar skoðanir um bæði ágæti þýðingarinnar og rökstuðning.

Sjálfur hef ég tileinkað mér mótandi gervigreind. Eiríkur Rögnvaldsson birti um daginn pistil á vef sínum um þetta þýðingarverkefni og styður helst skapandi gervigreind (eða jafnvel nýskapandi gervigreind). Ég er ekki sammála Eiríki og ætla að útskýra hér af hverju. Rök mín er þrenn:

  1. Skapandi gervigreind er ekki rétt þýðing á því sem átt er við með generative AI,
  2. Það að vera skapandi er mannlegur eiginleiki sem við erum ekki tilbúin að ljá tækninni,
  3. Við verðum að geta átt von á því (þótt það gerist mögulega aldrei) að gervigreind framtíðarinnar verði meira skapandi en nútíma gervigreind. Hvað köllum við hana ef við erum búin að nota hugtakið skapandi?

Skapandi er ekki rétt þýðing á generative

ChatGPT er án efa þekktasta mótandi gervigreindin í notkun í dag.

Í enska hugtakinu generative AI vísar orðið generative upphaflega ekki til afurðar slíkrar gervigreindar heldur aðferðarinnar (nánar tiltekið reikni- eða röklíkans) sem hún notar til að strengja saman orð. Þetta er allt mjög tæknilegt og ég ætla ekki að þykjast skilja hvernig þetta virkar. Ég væri þakklátur ef einhver sem þekkir betur þessa tæknilegu hlið gæti komið inn í þessa umræðu ef þarf að útskýra hana betur.

Ég ætla samt að reyna að segja nokkur orð um það hvernig ég skil þetta. Það eru tvö líkön sem algengast er að nota í tengslum við þá gervigreind sem hér um ræðir: annarsvegar generative model og hins vegar discriminative model. Generative AI notar augljóslega generative model og þaðan er heitið sem við notum í dag komið.

Munurinn á generative og discriminative módelum er í mínum skilningi (og hér er ég mögulega kominn á hálan ís vegna þekkingarskorts) að discriminative módel nýtast til að ákvarða viðbrögð gervigreindarstýrðar tækni við tilteknar aðstæður. T.d. gervigreindarstýrður tölvupóstþjónn notar discriminative módel til að ákveða hvort henda eigi tilteknum tölvupósti í ruslpóst. Þegar gervigreindin hefur tekið þessa ákvörðun gerir hún ekki meir – hennar hlutverki er lokið. Generative módel geta framleitt gögn sem taka mið af tilteknu verkefni og viðeigandi gagnamynstrum og gera það þangað til þeim er sagt að hætta. Þannig að:
discriminative módel -> ákvörðun (t.d. já/nei, af/á)
generative módel -> safn gagna út frá tilteknum forsendum (t.d. talnaröð, setningar/textar).

Annað varðandi þetta orð generative: Fyrir enskumælandi fólk (allavega enskumælandi Bandaríkjafólk eins og mig) er töluverður munur á hugtökunum generative og creative (eða generate og create). Ég get ekki sagt nákvæmlega hver munurinn er. Þetta er eitt af því sem einstaklingur sem er fæddur inn í viðkomandi tungumála- og menningarheim finnur á sér en getur ekki endilega útskýrt. Þetta birtist í því að hugtökin eru ekki notuð á sama hátt. Tökum sem dæmi það sem ég segi um generative gervigreind fyrir ofan – að helsti eiginleiki hennar er að hún getur haldið endalaust áfram að dæla út texta í samræmi við tilteknar skipanir. Ennfremur, þegar hún hefur einu sinni sent frá sér tiltekinn texta í samræmi við skipanir getur hún sent frá sér ótal útgáfur af sama texta ef um það er beðið. Orðið creative myndi vanalega ekki vera notað yfir slíka hegðun. Maður myndi kannski segja að upphaflega útgáfan hafi verið created. En nýir textar, sem fela í sér sömu tjáningu og merkingu, myndu frekar vera sagðir generated, en ekki created. Frummyndin er created en eftirmyndir, sama hversu ólíkar þær kunna að vera, eru generated. ChatGPT virðist skilja þetta og gera sama greinarmun á creative og generative – þegar ég spurði hana “are you creative”, svaraði hún:

“As a machine learning model, I don’t have subjective experiences, emotions, or a sense of creativity. However, I can generate text that may seem creative to humans. I can write poems, stories, or create other forms of creative content based on the data I’ve been trained on. My “creativity” is fundamentally a result of complex mathematical algorithms processing a vast dataset, rather than a manifestation of original thought or artistic intent.

In essence, my outputs are generated based on patterns and statistical relationships within the text I’ve been trained on, which includes a broad range of content from factual information to creative writing. While the output may resemble creativity, it’s important to remember that I don’t possess the ability to be truly creative in the way humans are.”

Skapandi gervigreind finnst mér því ekki viðeigandi þýðing á generative AI vegna þess að generate í þessum skilningi vísar ekki til sköpunar, í þeim skilningi sem er átt við þegar við segjum að manneskja sé skapandi. Það ætti kannski betur við að þýða generative sem framleiðandi, í sama skilningi og við framleiðum rafmagn. En engin hefur stungið upp á framleiðandi gervigreind (svo ég viti) enda heldur óþjált, og bara ljótt.

Sköpun er mannlegt atferli

Sumir segja að húmor sé hámark mannlegrar sköpunar. Hér er dæmi um tilraun mótandi gervigreindar til að vera fyndin.

Ég hef heyrt frá þó nokkrum að þeim finnist óþægilegt að nota orðið skapandi í tengslum við gervigreind. Fyrir þeim er getan til að skapa það sem helst greinir á milli manna og véla og jafnvel milli manna og flestra dýra. Það að segja að gervigreind sé skapandi er að ljá ópersónulegri tækni mannlega eiginleika. Ég er eiginlega sammála þessu og held að fyrr myndum við breyta skilgreiningu okkar á hugtakinu skapandi áður en við samþykkjum að vél geti verið skapandi. Í raun held ég að megi segja að sköpun er ekki bara hugtak sem lýsir sérstökum mannlegum hæfileikum heldur er það hugtak sem við mannkynið höfum eignað okkur og er ætlað að aðgreina okkur frá öðrum verum. Þannig að þýðingin skapandi gervigreind gerir gervigreindina of mannlega, sem okkur finnst óþægilegt og jafnvel ógnandi.

Gervigreind og framtíðin

Nú kemur framtíðafræðingurinn upp í mér. Ef við leyfum okkur að kalla gervigreind nútímans skapandi gervigreind hvað eigum við þá að kalla gervigreind framtíðarinnar sem kemst nær því að vera skapandi en hún gerir nú? Við verðum að gefa okkur að gervigreindartæknin muni halda áfram að þróast. Ný tækni verður til, ný reiknilíkön verða þróuð og geta gervigreindarinnar til að líkja eftir mannlegri sköpun mun aukast. Fyrir mér er sköpunarhugtakið í þessu samhengi svolítið eins og fræga hugtak Aristótelesar evdæmónía: skapandi gervigreind er eftirsóknarvert markmið en það er ólíklegt að það náist nokkurn tímann vegna þess hversu loðið hugtakið er og að fólk er ekki sammála, og verður það líklega aldrei, um hvað skapandi gervigreind er nákvæmlega. Það verður mögulega aldrei hægt að fullyrða endanlega að gervigreind er orðin skapandi, en það kemur ekki í veg fyrir að við eltumst við þann draum. Ef við erum búin að spandera sköpunarhugtakinu í einhverja hálfgerða beta-útgáfu (jafnvel alpha-útgáfu) hvað eigum við þá að kalla næstu, betrumbættu kynslóð skapandi gervigreindar? Verður hún bara v2.0?

Til gamans lét ég ChatGPT lesa og súmmera textan hér fyrir ofan. Í lok svars síns set hún eftirfarandi óumbeðin:

Mögulegar ályktanir:
Mögulega ættum við að leitast við að finna nýtt hugtak, eða nota eitt sem er nú þegar til, sem gæti hentað betur en “skapandi” til að lýsa generative AI. „Mótandi“ eða „myndandi“ gætu verið næst á lista, en þessar tillögur þurfa að verða tekið í gagnlega umræðu áður en loka ákvörðun er tekin.

Að lokum

Eins og er væntanlega ljóst finnst mér skapandi gervigreind ekki nægilega góð þýðing á generative AI. Ég hef sjálfur notað mótandi gervigreind, sem er mín eigin tillaga en ég hef séð hana þetta notað af öðrum. Mótandi, í mínum huga, nær að lýsa helsta eiginleika generative AI sem er að hún mótar upplýsingar til framsetningar (í ræðu,riti, myndum, o.fl.) úr þeim gögnum sem hún hefur lært af. Í þessu felst ekki sköpun heldur er þetta meira eins og framleiðsla sem byggir á sköpun. Svolítið eins og þegar hönnuður hjá Iittala býr til mót svo hægt sé að fjöldaframleiða það sem hann hefur hannað. Hönnunin er sköpun en það sem kemur úr mótinu er framleiðsla sem nýtir sér sköpunina, jafnvel þótt það væri á einhvern hátt frábrugðið frummyndinni t.d. ólíkt efni, litur, o.s.frv.. Myndandi gervigreind er líkt mótandi gervigreind en það er eitthvað við það sem truflar mig. Kannski er eitthvað óþjált við það, kannski er það orðið mynd sem virkar svolítið þrengjandi. Spunagreind er áhugaverð tillaga og ég held að ég skilji hvað er verið að fara með þessu, en ég er samt lítið hrifinn. Eiríkur er með ágætt rök á móti sem ég get tekið undir. En það er líka að, sem tónlistarmaður, er spuni fyrir mér eitt æðsta form sköpunar. Það að taka þátt í spuna, hvort sem er í tónlist, leiklist eða öðrum listformum, er gríðarlega krefjandi og reynir á alla sköpunarkrafta listamanna. Nútíma gervigreind kemur ekki nálægt því að sýna þá hæfileika sem þarf til að gera flottan spuna. Þannig að ég stend enn með mótandi gervigreind sem þýðingu á generative AI.

Teiknimyndin fyrir ofan er úr seríu sem gervigreind var látin semja og birtist í The New Yorker. Meira um þetta hér: https://hyperallergic.com/671843/neural-yorker-ilan-manouach-ioannis-siglidis/

This entry was posted in Artificial Intelligence, Technology foresight. Bookmark the permalink.

Leave a Reply